Ginnungagap

26 nóvember 2005

Ja hérna hér

Haldið ykkur, haldið ykkur fast! Ég, Arna Hjörleifsdóttir, er rétt komin frá Húsavík. Það gerist nú ekki oft. Nú eru eflaust margir sem eru að velta því fyrir sér hvort ég hafi þurft að hitta lækni eða sýslumanninn. Ég þurfti nú hvorugt, ég var að heimsækja hana Sigrúnu ömmusystur mína á sjúkrahúsið.

Landsleikur í handbolta á eftir. Þetta er nú reyndar bara vináttulandsleikur en það breytir því ekki að ég á eftir að missa mig í æsingi. Sem betur fer er ekki til kók, þá myndi enginn þora að horfa á leikinn með mér. Fyrir þá sem er ekki kunnugt um handboltaástand mitt þá myndi ég ekkert vera að kynna mér það - ég er sjálfri mér og öðrum hættuleg!

|

25 nóvember 2005

Acos(v) + Bsin(v)= C

Ég var í stærðfræðiprófi í dag og sannaði þessa reglu. Annars veit ég ekkert hvernig mér gékk. Vonandi vel! Nóg að gera eins og venjulega! Ég er komin heim. Harry Potter er frumsýnd í kvöld. Ég geri ekki þau mistök að fara aftur í bíó á frumsýningardegi, af ótta við að vera troðin undir. Ég hlakka samt svoo til að sjá myndina! Ég fann mér kjól í dag og er ánægð með hann (á leigu reyndar, en það er ekkert verra).

Stundum held ég að ég sé ein í heiminum... Ég stend mig oft að því að tauta með sjálfri mér og oft syngja þegar ég er ein að ganga. Stundum er ég líka að gera sérhljóðaprófanir á munninum á mér og þá hljóma ég eins og góður dagur á Sólheimum. Oft hlæ ég líka upp úr þurru. Svo tala ég endalaust mikið við Lappa þegar við erum bara tvö heima. Þessa dagana eru gluggar líka uppáhaldsspeglarnir mínir. Maður sér sig ekki nákvæmlega og allar misfellur hverfa og maður er alltaf sætur í þeim. Það sem er hins vegar ekki eins gott er þegar ég missi mig í trylltum dansi fyrir framan gluggana og dáist að "fimum" hreyfingum mínum. Það gerðist einmitt í gærkvöldi þegar ég missti mig í mambó hlustandi á Bogomil Font og milljónamæringa. Ég er ekki viss um að fólkið sem átti leið um Suðurbyggðina hafi fundist hreyfingar mínar eins fimar! Það sem ég nota sem spegil er nefninlega gegnsætt...

|

22 nóvember 2005

And through it all she offers me protection

Þá er það ákveðið. Ég er búin að mæla mér mót við hann Róbert Vilhjálmsson þann 2.júlí Gauraborg í Svíþjóð. Ég fer ásamt fríðu föruneyti, Brynju, Ástu og svo verður Hildigunnur í Danmörku. Hlakka ekkert smá til. Var reyndar alltaf að skipta um skoðun um þetta í gærkvöldi. Við vorum nefninlega búnar að ákveða að fara að sjá hann Róbert í Kaupmannahöfn en þessir danir kunna sig ekki og keyptu alla miðana. En við létum danskan dónaskap ekkert stoppa okkur og leituðum bara til Svíþjóðar sem er ekki verra því aldrei hef ég komið þangað! Brynja hringdi nokkrum sinnum í mig í gærkvöldi. Fyrst til að segja mér að það væri uppselt í Köben. Ég hugsaði að ég nennti ekki að vera að pirra mig á þessu og sætta mig bara við það. Svo eftir smá stund hringdi Brynja aftur og sagði að það væru tónleikar í Gautaborg hvort við vildum ekki bara fara á þá. Þá varð ég rosalega glöð aftur. Svo hringdi hún í þriðja skiptið og sagði að miðarnir sem væru eftir í Sví þjóð væru svo lélegir að við vildum þá ekki. Þá hugsaði ég að ég skildi ekkert nenna að vera vonsvikin. En sem betur fer hringdi hún í fjórða skiptið og tilkynnti mér að það væri búið að kaupa miða!

Ég drakk kókómjók í dag og það var allt í lagi með hana. Ég held að það hafi verið gott að ég drakk hana strax og var ekki að velta mér upp úr atvikum síðustu vikiu, því ef ég hefði geymt það þá hefði ég kannski aldrei aftur þorað að fá mér kókómjólk.

Er ekki enn búin að ákveða neitt í sambandi við árshátíðina. Ég er reyndar búin að panta mér litun og plokkun en ég er ekki viss um að það sé viðeigandi klæðnaður.

|

18 nóvember 2005

Lóðin hlaðast á mig, bamm baramm, bráðum verð ég alveg eins og þú...!

Ég held að seinni gelgjan hafi hjálpað mér í gegnum stærðfræðihremmingar í gærkvöldi. Hvernig í ósköpum? Jú, ég var sem sagt að læra fyrir stærðfræðipróf og mér gékk ekkert sértstaklega vel - þangað til ég fann Eldhúspartý fm uppi í hillu hjá Sigga. Þessi diskur hefur ekki heillað mig hingað til svo að þetta lýsir djúpri örvæntingu minni. Á meðan ég hlustaði á gamla slagara í breyttum búningi, lærði ég bæði sannanir og reglu. Þegar eldhúspartýið var búið fann ég Best of Andrew Lloyd Webber. Ég er ekki viss um að Ella og Lappa hafi fundist þetta eins gaman og mér, því þegar maður er með heyrnartól gerir maður sér ekki alltaf grein fyrir því hvaða hljóð maður gefur frá sér...

Hrólfur á afmæli í dag, í tilefni af því ætlar hann að vera að heiman. En ég ætla heim og baka köku.

Í löngu í gær beið ég lengi í röð eftir að fá mér kringlu og kókómjólk í sjoppunni. Þegar settist svo loksins, tók ég bita af kringlunni og stóran sopa af kókómjólkinni. Það voru mistök - ég hljóp inn á bað og kúgaðist og skolaði munninn á mér lengi! Kókómjólkin var ónýt! Ég sat út löngu með fýlusvip en á leiðinni í tíma fór ég og fékk nýja. Svo þegar ég var komin í lífsleikni með kringluna og nýja kókómjólk, þorði ég ekki að fá mér sopa. Steinunn sessunautur minn var ekki með neitt pjatt og tók sopa - það voru líka mistök. Held að ég þori ekki að fá mér kókómjólk í bráð...

Pjattrófan

|

12 nóvember 2005

Fastir liðir eins og venjulega

Aaaa það er svo gott að koma heim. Kom heim um miðjan daginn og byrjaði á þessu venjulega: Pönnukökur hjá ömmu, kaffi á Holti, leggja mig, láta pabba vekja mig í kvöldmat og horfa á Spaugstofuna á Holti. Ég lagði mig reyndar á svo undarlegum stað að pabbi var nánast búin að kalla á björgunarsveit þegar hann fann mig. Mér fannst þetta nú vera óþarfa æsingur. Ég meina, hver leitar ekki í þrönga skotinu ofan á dýnunum undir nuddbekknum, bak við teppið...?
Það er svo fyndið þegar maður er ekki búinn að koma heim í svolítinn tíma þá verður allt einhvern veginn svo betra og fallegra en mann minnti. Það verður allt manns eigin. Fjöllin mín, vatnið mitt, húsin mín. Og þegar andinn heltók mig alveg var ég farin að eigna mér tunglið.

Sigga söngkennari fer í frí bráðum og hún er byrjuð að borga okkur tímana sem við missum með því að taka okkur í tíma á laugardögum. Ég átti tíma einhvern tímann um hádegið og ákvað því að kaupa mér miða á ball í gærkvöldi. Í gær þegar ég hringdi í Siggu til að fá það staðfest hvenær tíminn væri spurði hún hvort ég gæti ekki komið klukkan hálf ellefu. Og ég hugsaði að það væri nú ekkert mál því ég þyrfti ekkert að jafna mig eftir svona böll. Þegar ég svo vaknaði klukkan hálf tíu til að sjæna mig og koma röddinni í gang. Þá sá ég að ég þurfti nú e-ð meira en 40 mínútur til að geta sungið plús það að hárið á mér var eins og öskubakki, þannig að ég sendi Siggu sms, afboðaði mig í tímann og lúrði fram að hádegi. Flott Arna!

Það var mynd í sjónvarpinu í kvöld um ungan dreng sem missir föður sinn. Til þess að mamman haldi búinu tekur strákurinn þátt í einhverrri hundasleðakeppni til að freista þess að vinna verðlaunaféð. Hinir keppendurnir eru mikli stærri og æfðari en aðalsöguhetjan... Getur einhver giskað á það hvernig myndin endaði?

|

08 nóvember 2005

Allt að verða vitlaust

Síðasta blogg var alveg óvart... ýtti óvart á publish áður en nokkuð var komið. Er í sögu og var að fá prófið sem við tókum um daginn. Ætla ekki að segja annað um það nema að ég náði. Tónleikar í gærkvöldi. Gékk allt í lagi en mér hefur nú alveg gengið betur. Annað lagið sem ég söng er þrjú erindi. Ég byrjaði annað erindið rétt en fór síðan að ruglast og song tekstann úr þriðja erindi. Þegar ég fattaði hvað ég hefði gert, fór ég að hlægja, í miðju lagi. Flott Arna.

Hópurinn sem ég er í í lífsleikni á að skila verkefninu á morgun og við erum ekki byrjuð að neinu viti. Svo er ég í tónlistarskólanum í allan dag og get ekki unnið með þeim. Flott Arna.

Í dag, 9.nóvember, er kalt á Akureyri.

|

06 nóvember 2005

Sveitapiltsins draumur

Já nei ég fór ekki í leikhús aftur í kvöld. Fór hins vegar í keilu með Brynju og Hildi, fékk mömmupitsu og horfði á "so you think ypu can dance". Svo var hún Ragnhildur svo elskuleg að kitla mig og ég ætla að verða við því. Upplýsingar um kitl hjá Ragnhildi.

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
  • Læra að elda
  • Fara til Ítalíu
  • Þora að fara á hestbak
  • Vinna útivinnu
  • Vinna eitthvert sjálfboðastarf
  • Læra að dansa
  • Syngja í a.m.k. einni óperu
7 hlutir sem ég get gert:
  • Bakað
  • Prjónað
  • Farið upp á háa c
  • Sofnað við næstum því hvaða aðstæður sem er
  • Horft endalaust á ER
  • Tekið á móti lömbum
  • Farið ein t.d. í búðir og á kaffihús
7 hlutir sem ég get ekki gert:
  • Reynt að selja fólki eitthvað
  • Fundist gott að láta nudda á mér axlirnar
  • Borðað svið
  • Horft á fólk niðurlægja sig
  • Sett tunguna upp á nef
  • Leyst gestaþrautina á Arnarvatni
  • Lesið bækur eftir Helga Jónsson
7 hlutir sem heilla mig við hitt kynið:
  • Augun
  • Hárið
  • Flott líkamsbygging
  • Góð lykt
  • Tónlistarhæfileikar
  • Húmor
  • Fatasmekkur
7 frægir karlmenn sem heilla mig:
  • Johnny Depp
  • Björn Hlynur
  • Frank Lampard
  • Ewan McGregor
  • Eiður Smári
  • Mekhi Phifer
  • Guðjón Valur
7 orð sem ég segi oftast:
  • Jemundur minn
  • Pent
  • Sneddí
  • Súper
  • Hvað er málið
  • Herremíngúð
  • Villt
Þig getið ekki ímyndað ykkur hvað mér fannst þetta erfitt! Ætla að gera það að manngæsku minni að kitla ekki neinn! Það er líka búið að kitla flesta á mínum bloggrúntinum mínum. Nema kannski Ernu og hún má endilega gera það ef hún vill.
Ég held að Johnny vinur minn Depp sé á öllum svona listum sem ég hef séð. Pælið í því.
Er ekki ennþá búin að læra textana sem ég er að fara að syngja á þriðjudaginn, gaman á því...

|

05 nóvember 2005

Ég er mín eigin kona

Váá... Ég var að koma úr leikhúsi með Ernu sem sér að hluta til um menningarlegt uppeldi mitt. Við fórum á Woyzech og sýningin er frábær! Örugglega flottasta sýning sem ég hef farið á! Ég er svo uppfull af leikhúshugsunum að ég er inni á midi.is að leita mér að öðru leikhúsi annað kvöld. Það er alltaf svo mikil stemning tengd því að fara í leikhús, allir svo fínir og spenningurinn sem kemur þegar ljósin dofna og þegar tjaldið er dregið frá. Í þessu verki eru líka svo margir flottir karlmenn, til að mynda Björn Hlynur. Gaman að segja frá því að í einu atriðinu óttaðist ég að hann myndi sparka ítrekað í hausinn á mér og hann spýtti ítrekað yfir mig. Minnti mig nú bara á Með fulla vasa af grjóti hérna um árið.

Ragnhildur kitlaði mig, en í kvöld er ég ónæm fyrir kitli og ætla bara að klóra mér á morgun.

Elska það þegar maður verður svo barnslega skotinn í t.d. leikurum eða íþróttamönnum að maður verður varla mönnum sinnandi ef þeir eru nefndir á nafn. Í dag hafa Björn Hlynur og Guðjón Valur þessi áhrif...

Leikhúsrottan

|

02 nóvember 2005

Háa c-ið, hér kem ég!

Mér finnst svo gaman í tónlistarskólanum. Loksins er ég farin að sjá árangur erfiðisins. Ekki misskilja mig samt - ég er ekki búin að læra að syngja! Ég held að maður læri það nú reyndar aldrei... Ég er samt t.d. farin að heyra og finna þegar ég er að gera vitlaust, heyra þegar aðrir gera eitthvað ekki alveg eins og á að gera það og ég held að röddin í mér hafi stækkað um 4 númer á einu ári! Ef ég verð áfram svona dugleg tek ég vonandi grunnprófið í vor.

Barnabækur er það sem vermir náttborðið þessa dagana og ekki í fyrsta skiptið. Það er svo gott að lesa barna- og unglingabækur, þær eru ekki með einhverjum óþarfa flækingi og slaufum. Í 96% tilvika enda þær líka vel og hvern langar nú eiginlega að lesa skáldsögu sem endar illa...? Er að klára Sitji Guðs Englar, Saman Í Hring er næst. Svo las ég um daginn Peð á plánetunni jörð. Hún er um alvöru fólk með alvöru vandamál og hún endar vel. Já og svo les ég helst ekki barnabækur sem ég hef ekki lesið áður. En ég les samt aldrei fyrsta kaflann aftur. Hef til dæmis örugglega lesið Sitji guðs englar, saman í hring og sænginni yfir minni 10 sinnum og Peð á plánetunni jörð álíka oft.

Fór í sögupróf í dag og ég væri að ljúga ef ég segði að mér hefði gengið vel...

|

01 nóvember 2005

Dýrmætur farmur

Alltaf sama vesenið á mér. Það er löng helgi um næstu helgi og í staðinn fyrir að drífa mig strax suður eins og góðri stúlku sæmir, ætla ég heim á fimmtudaginn og sjá Hrólf brillera í Blessuðu barnaláni. Ætla reyndar að taka hann upp svo mamma geti líka séð hann. Svo þarf pabbi greyið að aka heimasætunni til Akureyrar þaðan sem hún flýgur til Reykjavíkur á dýrasta miðaverði.

Helgin var afar róleg. Gerði mest lítið. Fór samt með Ella í hestaflutninga og undirbjó komu Þjóðverjana. Lærði sem sagt ekki neitt. Ekki fyrir sögupróf, ekki neitt í stærðfræði. Ég er farin að vera svona hæfilega kærulaus í náminu. Ég er ekki að segja að ég sé ekki að læra - ég læt námið bara ekki stjórna mér. Ég kýs reyndar að kalla þetta ekki kæruleysi heldur forgangsröðun nútíma konu á framabraut...

Það eru tónleikar eftir viku og ég er að fara að syngja tvö lög í samsöng á eftir. Það er gaman að segja frá því að ég kann hvorugan textan!

|