Ginnungagap

30 apríl 2007

Poverty is the worst form of violence (Mahatma Gandhi)

Ég er klárlega ekki efni í forritara ársins. Ég breytti til hjá mér til að gera nú allt fínt og fallegt en það er galli á gjöf Njarðar. Allt sem ég var búin að stilla að mínum þörfum datt út og ég þurfti að byrja frá grunni. Ég er búin að sitja sveitt í allt kvöld við að setja tenglana inn upp á nýtt, koma haloscaninu aftur inn, koma blogger-kommentakerfinu út og ég veit ekki hvað. Þetta þarf allt að gera á einhverju geimtungumáli. Mér tókst þetta í grófum dráttum en eftir situr tómt Previous Post, ég hef ekki græna glóru um það hvernig ég á að laga það en það verður bara að hafa það. Svo á ég sjálfsagt eftir að bæta einhverjum í tengla, þið sjáið bara um að minna mig á það.

Inn á milli blótsyrða og þess að reyna að muna 20 gleymd password horfði ég á American Idol. Ég var orðin eins og amerísk grenjuklisjukerling með útbitna samvisku því það var fjáröflunarþáttur til styrktar ýmsum góðum málefnum. Það er hræðilegt að sjá aðbúnaðinn sem sumt fólk býr við. Sumir berjast við það alla daga að sjá fyrir fjölskyldunni sinni en það oft bara ekki nóg, fólk er að svelta allstaðar í heiminum! Það er líka erfitt að reyna að sjá fyrir börnunum sínum þegar maður er sjálfur langt leiddur af alnæmi eða öðrum sjúkdómum. Hvað þá þegar öll börnin manns eru með malaríu! Fátækt er ekki eitthvað sem er allt í lagi að viðgangist bara af því að hún hefur alltaf verið til! Hvorki í Afríku, Ameríku eða Íslandi (já það er til fátækt fólk á Íslandi)! Og hvað geri ég? Ég geri mest lítið nema að fá allasvakalegt samviskubit yfir kexinu sem ég var að borða en mig langaði ekkert rosalega mikið í. Og guð veit að ekki var það hungur sem knúði áfram átið!
Það eru bara svo rosalega margar leiðir til að láta gott af sér leiða að ég á eftir að eiga í hinum mestu vandræðum með að ákveða hvað ég ætla að styrkja. En það er víst að samviskan hættir ekki að naga fyrr en ég læt gott af mér leiða! Hvað með þína samvisku?

|