Ginnungagap

31 janúar 2006

Arna hlær að sjálfs sín fyndni

Í u.þ.b. viku er ég ekki búin að gera neitt. Ég hef farið seint að sofa, seint á fætur og ekki afrekað mikið. Ég keypti reyndar 5 boli, fór í leikhús og af og til uppeftir til ömmu. Svo hef ég farið þrisvar á dag inn á INNU til að gá hvort stundataflan mín sé komin. Hún kom í dag og ég væri að ljúga ef ég segði að hún væri fín. Ég er nánast eins mikið í skólanum og boðið er uppá. Byrja alltaf klukkan 8 og er þrjá daga til 4. Engar eyður.En að öllum ólöstuðum held ég að 2. sería af ER (eða Akutten, eins og hún heitir á norsku) hafi haldið á mér gegnum fríið. Hún er búin að vera mín stoð og stytta og svíkur mig aldrei!

Ég veit að Hrólfur yrði stoltur ef hann vissi hvað ég er búin að haga mér vel. Tímabilið er bara búið að fara ljúflega með mig og ég er aldrei búin að fá blóðnasir. En það er ekki búið - langt því frá! Erfiðir leikir eftir og ég gef ekkert eftir!

Mér finnst gaman að telja niður. Á morgun eru 11 mánuðir síðan ég fékk bílpróf, á hinndaginn eru 2 vikur þangað til ég verð 18, á morgun eru líka 5 mánuðir í að Brynja verði 23 og á hinndaginn eru 5 mánuðir í að stefnumót mitt og Hróbjarts Vilhjálmssonar fari fram í Gautaborg. Maður getur alltaf fundið eitthvað til að hlakka til!

|

25 janúar 2006

Benni Hemm Hemm

Það er komið að því! Það er komið að:
  • Óhóflegum æsingi sem jafnvel leiðir til blóðnasa.
  • Tvöföldum óhóflegum æsingi, ef kók er haft við hönd.
  • Sigurgleði, í formi óviðráðanlegra hljóða og hreyfinga.
  • Tapsæri, sem kemur fram í rembingi við að láta ekki sjást á sér að maður sé tapsár.
  • Endalausri þjóðerniskennd.
  • Undarlegum eignarrétti á 16 einstaklingum.
  • Uppáhaldstíma mínum á árinu!
  • Ekki uppáhaldstíma Hrólfs á árinu.
  • Því að Arna fari endanlega yfir um!

EM byrjar á morgun!

P.S: Mér finnst gaman að segja Benni Hemm Hemm!

|

Hóm svít hóm

Það var svo kalt uppi í herbergi þegar ég fór að sofa í gær. Það blés í gegnum gluggan, þó hann væri lokaður. Ég var bara með þunna sæng en var með teppi ofan á henni. Ég var í sokkum en allt kom fyrir ekki, ég gat varla hreyft mig fyrir kulda. Svo vaknaði ég um þrjúleitið í nótt með andlitið klesst á blaðinu sem ég sofnaði út frá og var ennþá kalt. Ég slökkti ljósið og sofnaði aftur og þegar ég vaknaði í morgun var mér ótrúlega heitt. Skil ekki svona öfgar.

|

23 janúar 2006

Ég er víst ekki alveg fullkomin...

Ég var að koma frá tannlækni og það var verið að gera við einu skemmdina sem ég hef nokkurn tímann fengið. Þar af leiðandi er ég alveg dofin öðru megin í munninum og lifi í stöðugri hættu um að annað hvort bíta í eða gleypa tunguna í mér. Síðan ég kom heim er ég búin að stunda miklar rannsóknir á því hvað ég sé dofin langt út á andlit og hvað ég geti eiginlega togað vörina á mér langt. Ég hef bara einu sinna áður verið deyfð og ætla því að gera eins miklar rannsóknir núna og unnt er.
Síðasta próf er á morgun og til að fagna því er ég að hugsa um að kaupa mér myndavél til að taka mynd af fríinu mínu. Ég ætla líka heim að spila púkk og svo fer ég suður á fimmtudaginn. Um daginn var ég að tala um að ER væri minn læknaþáttur og ég vildi ekkert Strong Medicine kjaftæði. Ég er ennþá sammála því en núna er Grey's Anatomy uppáhalds nýji þátturinn minn. Svona hæfileg blanda af sjúkdómum, alvöru og rómantík. Þorrablótið um helgina var mjög skemmtilegt eins og við var að búast. Gettu betur klukkan hálf 8: Áfram MA!
Arna - með slef niður á bringu!

|

19 janúar 2006

Dagur í lífi Lappa

Það var rosa gaman hjá mér í gær. Ég fór með Sigga í sveitina í fyrradag og í gær þegar við komum heim fórum við beint í hesthús. Ég skemmti mér konunglega og gelti eins og mófó og hljóp út um allt og pissaði utan í marga staura og lyktaði af mörgum skítahrúgum. Þegar ég kom heim úr hesthúsinu slappaði ég af og laggði mig í sófann í nokkra tíma. Ég fékk að fara með Örnu þegar hún keyrði Sigga niður á höfn. Það var rosa gaman og á leiðinni heim sá ég hund í bandi og hló að honum. Þegar Arna var búin að leggja bílnum og komin út sá hún að hún hafði gleymt að slökkva ljósin og opnaði bílinn aftur og teygði sig í ljósin. Á meðan var ég alveg ótrúlega sniðugur og hljóp af stað út Suðurbyggðina. Arna kom reyndar hlaupandi á eftir mér, kallandi á mig en ég heyrði ekki orð af því sem hún sagði. Ég var of upptekinn við að lykta af hverju einasta horni og spræna aðeins hér og þar. Ég hljóp áfram Byggðaveginn, fram hjá Súper og alveg út að Þingvallastrætinu. Ég var að taka beygjuna upp Þingvallastrætið þegar ég sá óásprænt horn í hina áttina og snéri því við. Ég sá Örnu snúa líka við og hlaupa á eftir mér en ég hélt að hún væri bara í heilsuræktarhlaupi og nennti ekkert að vera að púkka upp á hana. En þegar ég var komin að Vanabyggðinni stoppaði ég og horfði út í loftið þegar Arna kom til mín. Hún var frosin í framan og svo kafmóð að hún kom ekki upp orði svo ég ákvað að fara til hennar og gá hvort það væri ekki allt í lagi. Þá bara tók hún í hálsólina mín og leiddi mig alla leiðina heim. Ég varð pínu fúll, því ég er stór strákur sem þarf ekkert að leiða en Arna hlustaði ekki þegar ég var að reyna að segja henni það. Þegar við komum svo heim skammaði Arna mig pínu og ég var pínu sorrý og fór í hornið mitt. Svo þegar ég fór til Örnu og ætlaði að láta hana klóra mér pínu var hún enn fúl því að hún hafði misst af öllu nema 5 mín af ER. Ég skil ekki af hverju hún var fúl, hún hefði ekkert þurft að fara út að hlaupa þegar hún vissi að ER var í sjónvarpinu.

Litli Prinsinn, a.k.a Lappi "Gabríel" Erlingsson

|

16 janúar 2006

Stæ 403 here I come!

Ég held ég sé skitsó/einhverf/allsvakalega þroskaheft. Miklar einverur mínar undanfarna daga eru farnar að segja til sín. Ef einhver myndi sjá til mín myndi hann halda að ég væri nýsloppin út. Ég hlæ, skelf og tala við sjálfa mig (eða Lappa) um stærðfræði. Ég er algjörlega óhæf í að tala um eitthvað annað en stærðfræði, nema þegar ég tala um Lappa, því ég er orðin eins og óþolandi mamma sem talar ekki um annað en barnið sitt og í þessu tilviki er Lappi barnið mitt. Flestar setningar mínar þessa dagana byrja á: "Veistu hvað Lappi gerði...". Ég stóð líka sjálfa mig að því að tala um mig í þriðju persónu. Ég hélt að það gerðu bara óþolandi mæður. Ég sagði við Lappa að ég gæti ekki leikið því "Arna" þyrfti að læra. Held það sé ekki allt í lagi. Eins gott að það er bara próftíð tvisvar á ári.

Farin í bað að hreinsa andann (og líkaman) fyrir ógnina ógurlegu.

|

11 janúar 2006

Ég og sjónvarpið, tölvan og ég

Enn ein tæknialdan reið hér yfir í gær þegar þráðlausa netið var tengt. Nú þarf ég ekkert að læra í prófatíð. Ég get bara hangið á netinu, horfi á sjónvarpið og borðað smákökur, eftirlitsslaus... Búin með eitt próf af átta og gékk bara ágætlega. Finnst eiginlega ekki að ég sé byrjuð í prófum, ég er eitthvað svo róleg.

Horfði á einn svona Strong medicine þátt áðan og ég verð að segja að ég held ég haldi mig bara við mína Bráðavakt. Þegar maður er komin í svona náin kynni við einn spítala er erfitt að kynna sér starfshætti á öðrum... Sko Bráðavaktin getur nú verið dramatísk en þessi þáttur var jafnvel enn dramatískari. Önnur aðalkonan var að skilja af því að kallinn hennar barði hana og dóttir hennar var í bakaðgerð til að losna við bakspelkur og hin aðalkonan var í klessu vegna þess að maðurinn sem hún var nýbúin að átta sig á að hún elskaði var skotinn í hausinn og varð heiladauður og um leið dó barn sem hún var búin að sinna í meira en ár. Þetta hefði nú tekið a.m.k. þrjá þætti í ER.

Jæja líklega best að drullast til að lesa Gylfaginningu og málsöguna, eða læra kannski læra sannanir í stærðfræði, eða kannski bara vera í tölvu og horfa á sjónvarpið...

|

05 janúar 2006

Æ, ég veit það ekki

Í morgun gerðist sá einstæði atburður að ég svaf yfir mig. Ég hef uppi kenningar um að ég hafi verið í dái því ég hef engar minningar um að hafa nokkurn tímann heyrt í neinni klukku, hvað þá slökkt á henni. Sigga vakti mig rétt fyrir hálf 9 svo ég missti bara af einum enskutíma. Svo var lífsleiknitíminn bara stuttur þannig að dagurinn á eftir að verða heilanum nokkuð ljúfur.

Kvefhelvítið hefur fundið sér leið gegnum fíleflda varnargarða mína og er að hreiðra um sig í efri hluta líkamans. Mér finnst tilhugsunin um kvef í prófum ekkert skemmtileg. Ég veit ekki heldur alveg hvort það er gott eða ekki að vera mikið einn heima með stöð 2 og stöð 2 bíó í prófunum. Því fyrir manneskju sem hefur alist upp við eina sjónvarpsstöð er það að fá stöð 2 eins og það væri ókeypis í nammilandi. Elli og Sigga eru að fara til Kanarí og á meðan verðum við Kári ein heima með Lappa og hestana. Held að það sé ekkert nema gott til að líta aðeins upp úr bókunum.

Ég fer heim á morgun til að vera við jarðarförina hennar Dobbu og þegar hún er búin fer ég aftur til Akureyrar. Það var allaveganna planið áður en ég komst að því að ég hafði talið sjálfri mér trú um að söguprófið væri fyrsta próf og ég þyrfti að lesa sögu alla helgina. Söguprófið er næst síðasta prófið þannig að ég held að helgin endi með einhverju allt öðru en planað var.

|