Ginnungagap

23 nóvember 2006

Arna á Alþingi

Ég vil:
  • Efla menntunarmöguleika á svæðinu.
  • Stórbæta samgöngur og stytta leiðina til Reykjavíkur.
  • Búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.
  • Lækka skatta.
  • Efla heilbrigðiskerfið og eyða biðlistum.
  • Bæta þjónustu við fatlaða.
  • Koma á stöðugleika í efnahagskerfinu
  • Fjölga atvinnutækifærum.
  • Skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda.
  • Gera almannatryggingar réttlátari.

Ég bið þig nú, kjósandi góður, um stuðning í prófkjöri Bestaflokksins í Norð-Austurkjördæmi laugardaginn 25.nóvember. Ég tel mig hafa þá þekkingu, reynslu, dug og þor sem til þarf að þjóna hagsmunum Norðlendinga af atorku. Samkvæmt óskrifuðum reglum prófkjara-auglýsinga tek ég að sjálfsögðu ekki fram hvernig ég hyggst efla þessi þessi loforð, fólk verður bara að kjósa mig til að komast að því. Auk þess eru þetta sömu loforð og allir aðrir hafa verið að gefa svo því verður ekki veitt mikil eftirtekt þó ég efni ekki mín. Mér finnst samt mest spennandi hvernig ég ætla að fara að því að stytta leiðina til Raykjavíkur...

Í framhaldi af þessum yfirlýsingum kemur svo þessi týpíska klausa. Myndir af mér manninum, börnunum og hundinum úti í Náttúrunni, uppvaxtar- og afrekasaga mín rakin, störf í þágu flokksins og svo loks stuðningsyfirlýsingar frá fólki af öllum stærðum og gerðum þar sem ég er nánast mærð í guðatölu. Ég er í tísku.

|

19 nóvember 2006

Fjörsund

Mikið rosalega er klár maðurinn sem skrifar íþróttafréttirna á mbl.is. Hann hefur fundið upp nýja íþróttagrein sem heitir fjörsund. Í fjörsundi er aðal áherslan lögð á að skemmta sér (án þess þó að drukkna) og sá sem skemmtir sér best vinnur. Dæmt er eftir úthaldi í fjörinu, fjölbreytni í stíl og hversu vel maður nýtir laugina. Leyfilegur klæðnaður eru rósótt sundföt og afar klæðilegar sundhettur. Nú um helgina var meistarmót Íslands í sundi og var þessari nýju íþróttagrein að því virðist skipt út fyrir hið hefðbundna fjórsund.
Ég leyfa mér að halda að þessar stúlkur hafi verið sterkar í fjörsundinu um helgina:

|

14 nóvember 2006

Þurrar tær gera hamingjusaman eiganda!

Aldrei á ævinni hef ég verið eins ánægð með að eiga gúmmístígvél og í dag og í gær! Veðrið er ekki búið að vera upp á marga fiska, í gær lá 15 cm slabblag yfir öllum götum og í dag er búið að snjóa, snjóa og snjóa! Ég fæ nostralgíukast við það að vefja buxunum þétt utan um fæturnar og ég tala nú ekki um þegar að sokkurinn verður eftir ofan í stígvélunum, það er alvöru. Það er eiginlega bara eitt sem er frábrugðið því sem var. Í gamla daga voru nefninlega flestir aðrir í stígvélum líka en þegar ég lít í kringum mig í forstofunni í skólanum eru engin önnur stígvél. Það eru reyndar nokkur gellustígvél en þau gera ekki sama gagn og gúmmístígvél. Þar eru einnig nokkrir vetrarskór, mikið af strigaskóm, nokkrir sumarskór og þónokkrir opnir gelluskór (sem ég get fullyrt að eru í eigu busagella sem eru ekki enn búnar að átta sig á því að það er ekki heillandi að vera heimskur! (efa líka að kalsár heilli marga...))
Ég er að hugsa um að gera óformlegri könnun um það hverjir komust í skólann í gær án þess að blotna í fæturnar? Þeir sem búa á vistinni mega líka svara því það var allt annað en þurrt á milli vistarinnar og skólans. Þeir sem komu á bíl mega líka svara því hafa líklega þurft að synda í gegnum bílastæðið til að komast inn í skóla. Þeir sem eru ekki í menntaskólanum eða búa yfirhöfuð ekki á Akureyri mega endilega líka segja mér einhverjar góðar fótasögur!

Arna sem er ekki blaut í fæturna!
(Afhverju í ósköpunum segir maður samt að maður sé blautur í fæturna?)

|

09 nóvember 2006

Þjóðlendur hvað?

Nú er komið að mér, sextugu Örnu, að tjá mig. Umræðuefni hennar í dag verður þjóðlendur. Eftirfarandi málsgrein er tekin af heimasíðu óbyggðanefndar og er um þjóðlendur:

"Fram að gildistöku þjóðlendulaga voru til landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til þjóðlendulaga kemur fram að gert sé ráð fyrir að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningar, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Tilgangur laganna er að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. "

Ok, þetta er kannski gott og gilt. En hvers vegna í ósköpunum er verið að taka land þar sem enginn vafi leikur á eignahaldi og engin sýnileg merki um að þar séu auðlindir sem hægt sé að græða á?!? Á þriðjudaginn var kynnt krafa fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins á landi norðan og austan Vatnajökuls og það er ekki lítil krafa skal ég ykkur segja! Það liggur við að meirihluti Skútustaðahrepps fari undir þjóðlendur. Mikill partur af Reykjahlíð og einnig partur af Grænavatnslandi. Og það eru ekki bara sandar og dauðir steinar sem verða teknir af okkur Grænvetningum heldur verða nokkrar af gersemum landareignarinnar eign allrar þjóðarinnar nái tillögurnar fram að ganga. Dæmi um þessar gersemar eru til dæms, Bláhvammur, Heilagsdalur, Seljahjallagil, Bláfjall og Suðurárbotnar. En það sem mér þykir nú samt verst af öllu er að Sellandafjall verður samkvæmt nýjum lögum þjóðlenda! Er ekki í lagi?! Ég er búin að prófa að vera hlutlaus og reyna að horfa á þetta hinu megin frá en ég get það bara ekki! Sellandafjall er einfaldlega yfir allt hafið!

Mynd eftir Ernu frænku mína, tekin í sumar þegar Sellandafjall var óumdeilanlega í landi Grænavatns.

Hægt er að skoða kort af nýjustu skandölum stjórnvalda hér.

Arna sem er sextug, bitur og þrjóskari en nokkurn tímann!

|