Ginnungagap

28 október 2005

Snjókorn falla

Ég sé fram á það að verða strandaglópur á Akureyri í dag. Ég verð að syngja á tónleikum milli 5 og 6 og allir sem ég veit um eru að fara fyrir þann tíma. Veðrið er vont þannig að líkurnar á að finna far eftir klukkan 6 fara minnkandi...

Ég keypti mér úlpu í gær og er mjög ánægð með hana. Þetta var samt merkileg búðarferð að því leyti að ég var ein og var í mesta lagi 10 mín inni í búðinni. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég verið ótrúlega lengi að hugsa mig um, ákveðið síðan bara að koma daginn eftir og ekki farið fyrr en eftir viku. Þá hefði flíkin ekki verið til í minni stærð og mínum lit.

Bendi öllum áhugasömum að lesa ferðasögu Kára frænda sem er að interrailast í A-Evrópu.

Arna bassi

|

26 október 2005

Sjálfsblekking?

"Já og einu sinni enn með ykkur, bassar"
Já þarna var verið að tala við mig... Ég er bassi. Það er þemavika í tónlistarskólanum og grunnstigið syngur negrasálma þríraddað. Eins og ég sagði erum við þrískipt og sætaskipan réði því að ég lenti í neðstu rödd. Ég hélt í tvo sólarhringa að þessi rödd héti annar allt. Ég lifði í sjálfsblekkingu - hún heitir bassi. Fékk áfall þegar Sigga söng sagði þetta í fyrsta skipti, nett sjokk þegar hún sagði þetta í annað skipti en í þriðja skiptið áttaði ég mig: Er þetta ekki draumur minn, um þáttöku í karlakór, að rætast?

|

24 október 2005

Við erum kraftakerlingar ligga ligga lá

Funduði þetta stelpur...?

|

Já ég þori, get og vil!

Í dag vildi ég óska þess að ég ynni einhver staðar, bara svo ég gæti gengið út kl 14:08. Mér finnst allt svona byltingakennt og öfgakennt skemmtilegt! Sérstaklega ef það snýst um réttindi einhverra minnihlutahópa. Í dag er þessi minnihlutahópur konur. Mikið vona ég að það taki margir þátt í þessu svo þetta verði ekki slappt. Þetta er allt of gott málefni til þess að leyfa þessu að verða slappt!

Ég held ég hafi ekki borðað neitt, sem amma myndi kalla mat, um helgina. Fæða mín samanstóð af óbökuðum marens, grillaðri brauðsneið, hamborgara, kókopuffsi, grillaðri brauðsneið, rjómapönnuköku og grillaðri brauðsneið.

Húsmóðurveiran er búin að taka sér bólfestu í mér. Dæmi: ég borða alltaf standandi við vaskinn - ef ég er ein heima þ.e.a.s.

Stórskemmtilegt slægjuball um helgina. Carmen-rúllurnar alveg að gera sig. Þarf að prófa gufurúllurnar hennar Siggu næst.

Sjáumst í Sjallanum kl 15:00!

|

21 október 2005

Rjómi?

Ég sveik Óla (Volvo-inn) og kom ekki á honum heim. Hann getur eiginlega sjálfum sér um kennt því hann er bara með eitt nagladekk. Er bara ánægð eftir að ég sá að ég hefði nú líklega bara runnið stjórnlaust niður víkurskarðið hefði ég farið á honum.

Dreif mig í búðina þegar ég kom heim og ætlaði bara að kaupa aðeins í tvær kökur en ég er ekki frá því nema það hafi heltekið mig einhver húsmóðurveira í búðinni því í staðinn fyrir að kaupa bara það sem ég ætlaði, rötuðu ótrúlegustu hlutir, sem ég ætlaði ekkert að kaupa, ofan í körfunni. Ég meina, afhverju keypti ég lítið smjörstykki og hveiti þó ég þyrfti það ekkert og það væri sjálfsagt til heima. Er að baka fyrir Hrólf, það er kökubasar á morgun og Arna er í tilraunastarfsemi með marengsbotna, rjóma og alls konar súkkulaði (aðallega rommkúlur og rommí). Ég náði líka að gera eitt sem hefur aldrei gerst í sambandi mínu við marens; mér tókst að gera fyrri plötuna að einhvrjum klessum , en seinna platan er að gera mig stolta í ofninum.

Hver leyfði að gömlu, ósamstæðu, ónýtu póstkassarnir væru teknir og í staðinn kæmu einhverjir samstæðir, fallegir og ólekir? Átti ekkert að spyrja mann álits?

Er ekki frá því nema ég hafi kannski bara náð stærðfræðiprófinu. Kannski Níels fari að vita hvað maður heitir ef maður stendur sig í þessum prófi, eða allavega vita í hvaða bekk maður er!

|

Skálaferð og slægjufundur

Kom úr skálaferð í gær. Hún var voðalega fín og róleg - margir sem kviðu fyrir stærðfræðiprófinu, sem við erum að fara í á eftir, og lærðu.

Lýsandi dæmi fyrir það hvað ég er heppin: Ég var fengin til að keyra bíl heim í dag sem er bara frábært. Þ.e. að geta verið á sinni eigin dagskrá. En nei - þá er bara orðið kalt og vegagerðarvefurinn segir að það sé hált alla leiðina heim. Volvo kallinn er ekki á neinum súper dekkjum þannig að mér sýnist að ég verði bara að koma mér einhvern veginn öðruvísi.

Leitin að þarfanautinu er án efa það sem stendur upp úr sjónvarpsdagskrá vikunnar! Hló mig máttlausa.

Er farin að líta á stærðfræðina áður en ég legg svo í prófið ógurlega. Trúi ekki öðru en ég nái!

|

18 október 2005

Sögulegur sögutími

Í dag verð ég mönnum sinnandi í fyrsta skipti í langan tíma. Ekki einu sinni tónlistarskóli! Þessar síðustu vikur hafa verið erfiðar og magasárs/taugaáfalls valdandi. Í gær var ég t.d. frá 16til 20:40 að gera sögufyrirlestur. Sá fyrirlestur var einmitt fluttur í dag og féll í skugga sama viðfangsefnis og mikillar umræðu um fyrirlesturinn á undan.

Eina verkefnið sem skyggir á hamingju mína er stærðfræðiprófið á föstudaginn! Eftir það er ég að hugsa um að gera mér glaðan dag.

Slægjuball á Laugardaginn.

|

16 október 2005

Sunnudagsmorgun

Ég er ekki frá því nema að dagar magasárs og taugaáfalls séu úr sögunni þar sem ég búin að skila heimadæmunum, þýskuverkefninu lokið, íslenskuritgerðina vantar bara eina setningu og ég er að vinna í söguverkefninu. Þetta ástand varir örugglega ekki lengur en fram á miðvikudag þar sem það er stærðfræðipróf og fimmtudag.

Ég verð aftur mönnum sinnandi á þriðjudaginn til miðvikudags.

|

10 október 2005

Stóri bróðir?

Ef ég hefði kveikt á sjóvarpinu mínu svona u.þ.b. klukkan 19:20 hefði ég orðið undrandi en mjög glöð. Ég hefði nefnilega haldið að það væri einhver ný sjónvarpstöð komin í loftið og ég væri með frítt áhorf. En nei, svoleiðis var það nú ekki. Atburðarrásin var svona:
  • Páll Magnússon las fréttirnar. Ekki í fyrsta skipti en það voru örugglega einhverjir sem ekki höfðu heyrt hann lesa fyrr.
  • Fyrsta fréttin í íþróttafréttum var um skylmingar.
  • Það eru komin ný veðurkort í veðurfréttirnar. Þór greyið átti í mestu erfiðleikum með tæknina.
  • Það er byrjað að senda út nýjan dægurmálaþátt að fréttum loknum.
Má skipta um allt í einu? Ruglast ekki stór hópur eldra fólks í ríminu?

Skólayfirvöld hafa komist að því að lögheimili mitt er í Suðurbyggð 4. Ég var svo sem ekkert að leyna því fyrir þeim en ég var ekkert að segja þeim það heldur. Ég sá þetta þegar ég gáði á INNU áðan. Veit ekki afhverju mér er svona barnslega mikilvægt að fólk viti að ég er úr Mývatnssveit en ekki Akureyri. T.d. sagði ég í handbók skólans að lögheimilið mitt væri á Grænavatni en aðsetur í Suðurbyggð. Það gerði ég daginn áður en lögheimilisskiptin gengu formlega í gegn, þannig að ég var í rauninni að segja satt.

Ekki laust við að ég sé með kjánahroll við að hlusta á umræðurnar í nýja Kastljósinu...

|

08 október 2005

Landsbyggðarfordómar...?

Í dag, laugardaginn 8.október, er kosið um sameiningu sveitarfélaga í Þingeyjarsýslu. Sjaldan eða aldrei hefur mig langað jafnheitt að vera orðin 18. Ég held að það hljóti að vera góð tilfinning að setja stóran og klunnlegan kross við "NEI". (Ég þyrfti reyndar að eiga lögheimili í Skútustaðahreppi til að mega kjósa, en það er annað mál.) Ég er alls ekki að segja að ég sé á móti Norður-Þingeyingum, þar sem að ég þekki nú einn alveg aldeilis ágætan. Ég er hins vegar að reyna að finna hvað Mývatnssveit og t.d. Raufarhöfn eiga sameiginlegt. Það er ekki nóg með að atvinnuvegirnir séu mjög ólíkir, heldur er þetta nánast á sitt hvorum endanum á landinu!
Í dag er ég pólitísk og set ég traust mitt á Mývetninga með kosningarétt.

Læri og tilheyrandi í kvöldmatinn.

|

04 október 2005

Heimskur hlær að sjálfs sín fyndni.

Ég hló eins og hálfviti þegar ég var að horfa á veðurfréttirnar áðan. Ekki það að veðrið hafi verið svona skemmtilegt (við eigum ennþá von á snjó), heldur sagði veðurfræðingurinn svo skemmtilega frá. Frásögn hans hljómaði einhvernveginn svona:

"Lægðin hefur sagt skilið við landið og er nú austan við það en hún skildi eftir afkvæmi ofan við Borgarfjörð. Litla lægðin á eftir..."

Mér fannst mjög fyndið að heyra virðulega veðurfræðinginn tala um "litlu lægðina" hvað eftir annað. Þetta var svona eins og barnasagan um litlu lægðina sem týndi mömmu sinni austan við land. Það þarf svo lítið til að skemmta mér...

Hildur frænka er örugglega komin á "most wanted" lista lögreglunnar í Prag eftir atburði dagsins. Hún reyndi s.s. að skipta fölsuðum 100$ seðli í banka og var tekin inn í bakherbergi. Þar var henni tilkynnt að seðillinn væri falsaður og það yrði að kalla á lögregluna. Hún lét nú ekki segja sér það heldur neitaði fyrst að seðillinn væri falsaður. Þegar hún sá loksins að hann var aðeins öðruvísi á litinn heldur en aðrir seðlar, sagði hún manninum að hún ætlaði sko ekki að leyfa þeim að taka hann, heldur ætlaði hún sjálf með hann í bankann þar sem hún fékk hann hjá frænku sinni áður en hún lagði af stað. Ekki veit ég hvað hún hefur sagt við manninn en hún er enn með seðilinn. Það skal tekið fram, svo það fari ekki milli mála, að Hildur hafði ekki hugmynd um að seðillinn væri falsaður þegar hún reyndi að skipta honum!

Óvænti söngtíminn í dag var einmitt það sem ég þarfnaðist.

|