Ginnungagap

23 apríl 2006

Stundin er runnin upp

Ég elska tímabilið sem nú er að hefjast. Það er ekki bara vegna hækkandi sólar sem ég gleðst heldur eru önnur atriði mér kærari. Það er sauðburður og eurovision. Tímabilið byrjaði núna um helgina. Áhugi minn á þessari einu rollu þeirra kerlinga sem er komin að burði er nánast óhugnalegur. Ég spyr nánar um heilsu hennar og hegðun en veikra ættingja minna og ég skrapp af og til út í Bakkhús til að gá hvort það væri eitthvað sem ég gæti gert til að flýta fyrir ferlinu. Það er ekkert sem ég get gert. Eurovision tímabilið hófst opinberlega í gær með fyrsta þætti Norrænu pallborðsumræðanna. Ég er ekki alveg sátt með þær breytingar sem gerðar hafa verið á spekingunum. Mér finnst reyndar sæti daninn fínn enda var ég aldrei alveg viss með þann gamla. Mér finnst nýji kynnirinn hræðilegur. Hvað varð um hressu stelpuna eða sæta strákinn? Þessi gamli karl með slykjubrosið og hræðilegu klippinguna er ekki alveg að gera sig. Síðasta og sísta nefni ég sænsku kerlinguna. Hvað var málið, hún var í fyrsta lagi í gegnsæjum topp, leit út eins og tuska sem hefur gleymst úti á snúru í nokkur ár, með fjórum númerum of stórt hár og svo var hún eins og hún væri á einhverju ólöglegu! Mér fannst Charlotte Nilson (eða hvað sem hún heitir nú...) ekki heldur skemmtileg í fyrra. Mér fannst hins vegar konan sem var undan henni alveg afbragð. En þátturinn var samt ágætur þrátt fyrir þessa annmarka og mér finnst þeir Thomas Lundin og Jostein Pedersen algerir gullmolar.

Arna sem langar í klippingu.

|

19 apríl 2006

Miðvikudagur til ...?

Í dag er síðasti vetrardagur. Það þýðir að á morgun er Sumardagurinn fyrsti og ég elska sumardaginn fyrsta. Þegar við Anna vorum litlar tókum við allt í einu upp á því að halda brennu á sumardaginn fyrsta. Við sönkuðum að okkur alls konar rusli og dagblöðum og svo eyddum við löngum tíma í að brenna það. Sumir gætu haldið að þetta hafi verið táknræn athöfn, brenna burt veturinn en ég held að við höfum bara verið að svala löngun skemmdarvargsins í okkur. Mig langar í brennu...
Þegar ég kom að sunnan í gær hafði rúmið mitt hækkað um tuttugu sentímetra. Ég þarf varla að reisa mig við til að hafa umsjón með stærð gluggarifu. Ég er samt ekki að kvarta undan stóru dýnunni, ég þarf bara að venjast því að sofa í hásæti.
Ég þoli ekki að þegar maður hefur ekki mikið að gera gerir maður ekki neitt. Ég er búin að hafa tvo og hálfan tíma til að gera allt sem ég þyrfti að gera en í staðinn lá ég uppi í sófa og horfði á sjónvarpið (þakka guði fyrir stöð2 bíó...) og er síðan búin að liggja í tölvunni. Ef ég hefði haft eitthvað meira að gera hefði ég skipulagt mig og endað á að gera allavega brot af því sem ég þyrfti helst að koma í verk.

Nenni að velta mér endalaust upp úr leti minni. Mig langar að deila með ykkur mynd af okkur frændsystkinunum sem var tekin í tilefni afmælis mest hipp og kúl ömmu í heimi. Glæsileg á að líta ekki satt...?

|

16 apríl 2006

Fullkomið heilbrigði

Ég sit í reykjarkófi og sé varla á skjáinn. Þetta er í annað sinn í dag sem kalkúnninn hrynur í ofninum og veldur öndunar- og sjónerfiðleikum hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Ég held að kalkúnsgreyið sé að reyna að segja okkur eitthvað og við erum svo squere að við skiljum það ekki. Bless bless góður páskamatur...

Ég er búin að vera að horfa á það var lagið í dag. Búin að einhverfast með heddfónana á hausnum og syngja með, sama hvort ég kann lagið eða ekki. En mér er sama - ég er skotin í Pálma Sigurhjartar.

O.C. búið í bili. Önnur sería er með því dramatískara í þessum heimi held ég bara. Boðið upp á alla þessa týpísku dramatík: óskilgetin börn, nokkur tilfelli um yfirvofandi framhjáhald, börn gerast samkynhneigð í mótþróa við foreldrana, gamlar klámmyndir, vandræðaunglingar sleppa úr fangelsi og gera allt vitlaust, óvænt drykkjuvandamál og hjartaáfall í sundlaug og morð í varnarskyni. Svo er reyndar líka einhver gamaldags ástarsaga um eina stelpu og tvo stráka en hver tekur eftir svoleiðis hallærisdrama...?

Er hætt að sjá á skjáinn sökum reyks - eins gott að kalkúnninn standi fyrir sínu.

|

13 apríl 2006

Get ég aðstoðað?

Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér en áhugalaust starfsfólk. Ég er ekki að tala um dónalegt fólk því ég held að ég hafi sem betur fer aldrei lent í því. Ég er að tala um fólk sem brosir ekki, býður ekki uppá hjálp sína, mumlar góðan daginn, horfir ekki á mann á meðan afgreiðslu stendur og hleypur frá borðinu um leið og það er búið að afgreiða mann. Alltaf eins og maður sé að trufla það þegar maður dirfist að koma og kaupa eitthvað. Ég var sem sagt í Kringlunni áðan og ég lenti í nokkrum svona. Maður er miklu ánægðari með vöruna þegar maður fær bros og þakkir þegar maður gengur út heldur en þegar maður fær ekkert.

Nóg um það. Ég fann lykt áðan sem ég hef ekki fundið lengi og við það fór allt af stað í hausnum á mér. Mig óraði ekki að það gætu verið svona margar minningar tengdar einni lykt. Ég var stödd inni í Body shop en við að finna lyktina var ég komin á boðsball á Stóru-Tjörnum síðan í klefann í íþróttahúsinu og loksins á íþróttamót á Laugum. Þessari lykt fylgja alls konar gelgju-minningar um atburði sem ég var búin að gleyma að hefðu gerst. Lyktin minnir mig líka á eldrautt bómullarpils sem ég átti þegar þvertoppurinn var alls ráðandi í mínu lífi. ,,The spirit of Moonflower" -flaskan sem mamma gaf mér þegar ég var svona tólf ára endist ágætlega lengi. Ég endurnýjaði hana aldrei en þarna þar sem ég stóð og var að borga í Body Shop leit ég við og sá fölbleikt yfirbragðið og fann að ég varð að finna lyktina einu sinni enn. Ég réði síðan ekki við mig og keypti body mist flösku af þessu bara til að geta spreyjað í kringum mig þegar mig langar að hverfa á vit gelgjunnar.
Ég held að gelgjan hafi verið ráðandi inni í Body shop því þar keypti ég líka bláan maskara. Gerir maður það...?

|

06 apríl 2006

Draumalandið mitt...?

Planið fyrir þessa viku var: Skila heimadæmum, skila og klára söguritgerð, fara í söngpróf, fara í Njálupróf og leyfa mér síðan að fara í páskafrí.
Vikan varð svo miklu meira: Skilaði heimadæmum og söguritgerð, sleppti söngprófinu sökum veikinda, tók ágætt Njálupróf, fór á Jesus Christ Superstar, fór á stórskemmtilegan fyrirlestur í Samkomuhúsinu þar sem Andri Snær kynnti bók sína, Draumalandið, fór ekkert í tónó, fór í bað um miðjan dag, nældi mér í aðra seríu af OC.

Frétt vikunnar númer 1 er samt það að hún Amma Dedda varð níræð í gær. Af því tilefni kom hún til Akureyrar og skellti sér á fyrirlesturinn hans Andra Snæs. Alveg rosalega hipp og kúl, hún amma.

Frétt númer 2 er svo að Menntaskólinn á Akureyri vann Gettu betur. Þeir unnu svo stórt að það var eiginlega ekki gaman en vá hvað það var gaman að vinna. Mér fannst líka svo gaman að sjá hvað voru margir í Kvosinni að horfa og svo fannst sextugu Örnu líka alveg rosalega flott að heyra að stuðningsliðið söng skólasönginn eftir að sigurinn var í höfn.

Páskafrí á morgun!

|