Ginnungagap

31 maí 2006

Hoppandi hálfviti

Ég held að ég sé ekki alveg eins og annað fólk! Síðasta mánuðinn hefur eitt af stóru verkefnunum mínum verið söngprófið. Svo þegar það var búið var ég strax farin að hlakka til skólaslita tónlistarskólans til að fá prófskírteinið mitt. Síðasta föstudag byrjuðu prófin í Menntaskólanum og ég hef ekki hugsað um neitt annað en líffræði, stærðfræði og núna síðast efnafræði. Í allan dag er ég svo búin að vera hjá Guðjóni að reikna. Þegar Guðjón keyrði mig heim rétt fyrir 7 var fullt af bílum við Glerárkirkju. Ég skildi ekkert í öllum þessum bílum og nefndi það við Guðjón en okkur datt ekkert í hug og ég hætti að hugsa um þetta. Svo kom ég heim og borðaði í rólegheitunum, fór svo í tölvuna og rakst inná bloggsíðu nemanda í tónlistarskólanum sem var að tala um að hann hlakkaði til að fá einkunnirnar sínar. Þá fyrst mundi ég eftir því að ég hafði átt að fara á skólaslit í dag klukkan 6 og fá skírteinið mitt. Ég hafði meira að segja átt að fara upp á svið og alles! Ég kveikti ekki einu sinni þegar ég sá alla bílana við kirkjuna! Eins gott að mér gangi vel í prófinu á morgun því hausinn á mér rúmar greinilega ekki aðrar upplýsingar þessa dagana, en þær sem varða efnafræði!

|

21 maí 2006

Glær og grunlaus á Grænavatni

Hún gékk hægum skrefum upp stigann og inn í herbergið. "Úff" hugsaði hún með sér, "en það drasl". Hún var of þreytt til að nenna að taka til svo hún byrjaði að gera sig klára í svefninn. Hún tók af rúminu og byrjaði svo að afklæðast. Þegar hún dró bolinn yfir axlirnar fann hún að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Það var kalt. Hún reyndi að leiða kuldann hjá sér, klæddi sig í náttföt og stakk sér undir tvöfalda sængina með bók í hönd. Sagan sem hún las var spennandi og dró athygli hennar frá blánandi nefi og frosnum fingrum. Þegar augnlokin fóru að vara við verkfalli gékk hún frá bókinni og slökkti ljósið. Hún gætti þess að hreyfa sig ekki of mikið til þess að fara ekki út af upphituðu hlutum sængurinnar. Að lokum sofnaði hún við nauðið í glugganum, dúðuð í sængina.
Klukkan sex morguninn eftir byrjuðu óvænt læti á náttborðinu sem hún átti í erfiðleikum með að átta sig á. Grýlukertið sem lafði fram að nefi hennar hjálpaði til við að koma henni til vöku og hún áttaði sig á hljóðunum. Þegar hún bagsaði við að slökkva á ofurtæknilegu-vekjaraklukkunni varð henni litið í neðsta horn skjásins. Þar var hitamælir sem sýndi að lofthiti herbergisins var 12°. "Nú, þó það" hugsaði hún og reis á fætur. Það voru stærstu mistök hennar þann daginn. Úti fyrir glugganum var snjór yfir öllu og enn voru snjókorn að fjúka úr loftinu. Hún gaf sér dágóðan tíma í sjálfsvorkunn áður en hún hélt fáklædd niður tvær hæðir til að klæða sig enn betur og halda á vígvöllin. Förinni var heitið til bjargar varnarlausum sálum sem vissu ekki betur en að koman í heiminn væri hlý og notaleg. Þennan morguninn bjargaði hún þónokkrum sálum, sumum við komuna í heiminn, öðrum við fæðuöflun þar sem þeirra eigin mæður höfðu afneitað þeim.
Eftir nokkra stund snéri hún aftur heim og fór aftur í rúmið viti menn - hitinn var kominn upp í 12.5°. Svona leið dagurinn og um kvöldið var farið að snjóa aftur og það snjóaði og snjóaði. Nágranninn úr næsta herbergi hafði forritað ofninn fyrr um daginn þannig að hún sofnaði sæl og þreytt í 15°. Morguninn eftir var keimlíkur þeim fyrri nema að hitinn hafði enn hækkað og var nú farinn að nálgast 18°. Stúlkan fór að venju að athuga hvort einhverjar sálir þyrftu á björgun að halda og enn voru einhverjir sem ekki höfðu heyrt ráðleggingar hennar um að fæðast ekki í svona veðri. Snjórinn buldi á þakinu og henni var farið að kólna. Seinna þennan sama dag vöknuðu nágrannar hennar úr næstu herbergjum og í sameiningu framkvæmdu þau öll helstu haustverkin; Lokuðu fyrir öll göt og rifur, stóðu í ströngu við að loka hlöðudyrunum, sem höfðu verið opnar í langan tíma, og hýstu einn villuráfandi sauð sem þau höfðu í barnaskap sínum leyft að yfirgefa húsið. Allt var þetta eins og það átti að vera en samt var einhver rödd innra með henni sem sagði henni að ekki væri allt með feldu. Loksins rann það upp fyrir henni, hún hafði lifað í blekkingu náttúruaflanna. Það var sársaukafull elding sem laust niður í huga hennar þegar hún áttaði sig á því að það var ekki haust - það var vor!

|

19 maí 2006

Was?

Í morgun vaknaði ég ógurlega hress og kát. Ég gékk hægum skrefum fram á bað teygði mig í tannburstann og leit svo í spegilinn. Venjulega heilsar mér í speglinum nokkuð illa til höfð útgáfa af mér (oft finnst mér ég reyndar bara líta ágætlega út á morgnanna, þroti og bólgur slétta húðina og varirnar eru eins og ég hafi farið í botox), morguninn í morgun var engin undantekning. Ég setti tannburstan upp í mig og ætlaði svo að virða mig fyrir mér en ég komst ekki lengra en að sjá upp að höku, og það enga smá höku. Hvernig stendur á því að maður fer að sofa með sæmilega höku en vakna með standandi undirhöku?! Ég hélt að mér hlyti að hafa missýnst og leit aftur en nei, hún er bara sest þarna að. Hvernig fer maður að því að æfa af sér undirhöku?

Ég var að hugsa um að skrifa hvað ég væri eyðilöggð manneskja yfir því að framsókn nái ekki inn manni í Reykjavík en ég hætti við það því ég gat ekki hugsað mér það að einhvern myndi ekki fatta kaldhæðnina...

|

17 maí 2006

I carried a watermelon!

Í gærkvöldi hlustaði ég á escradio.com, þar sem heyra má eurovisionlög af öllum stærðum, gerðum og aldri. Á undan sumum lögunum sem eru að keppa núna kynna flytjendurnir sig og lagið sitt á misbjagaðri ensku. "Hæ mæ neim is Achenbract and tis is mæ song for At-hens tútásandsix." Svo eru ótrúlega hallærisleg remix af nokkurra ára gömlum lögum og það er eins og allir hafi sett lagið sitt á einn og sama grunninn því í remix útgáfunni hljóma þau öll alveg eins. Af og til eru lög líka kynnt "this is a eurovision classic". Það eru þá venjulega, eins og nafnið bendir til, klassísk gömul lög sem gerðu það gott. Ég held að það hafi einhver mistigið sig aðeins í gærkvöldi þegar Það sem enginn sér, framlag Íslendinga árið 1989 var kynnt sem eurovision classic. Ég veit ekki betur en að það hafi ekki fengið nein stig og hafi ekki verið neitt sérstaklega vinsælt, ekki einu sinni á Íslandi.
Danska tvistið fer ekki úr hausnum á mér. Mér fannst það ekkert spes í fyrsta sinn sem ég heyrði það en það verður flottara í hvert skipti. Ég er strax farin að hlakka til laugardagsins - ekkert er betra en blanda af eurovision og sauðburði! Robbie eftir aðeins rúmlega 40 daga!

|

15 maí 2006

He didn't know how to twist

Vorið er komið! Sannanir fyrir því má finna í höfðinu á mér sem geymir nú allskonar óþarfa upplýsingar opnanir listasýninga sem ég heyrði á rás 2 um helgina, höndunum á mér sem eru eins og sandpappír og laginu sem ég er með á heilanum, en það er á tungumáli sem ég skil ekki.
Vikan verður erfið/skemmtileg/ógnvekjandi. Til að standast þær raunir sem bíða mín pantaði ég mér tíma í litun og plokkun, því hvað sem gerist þá verð ég allavega með fínar augabrúnir. Annað kvöld verður Gettu betur-kvöldvaka í skólanum og þar ætlum við Sigurlaug og Fjölnir að halda uppi heiðri 2.V í bekksagnamótinu. Á miðvikudaginn verð ég að læra fyrir stærðfræðipróf til að bæta fyrir árangurinn í síðasta stærðfræðiprófi! Á fimmtudaginn er svo Eurovision - það krefst ekki skýringa. Já og svo á föstudaginn er svo blessaða söngprófið mitt þannig að ég verð líklega að gefa mér tíma af og til til að fara í söngtíma og æfa mig.

Ég er haldin þeirri áráttu að vilja koma mér upp algjörlega gagnslausum hæfileikum. Einu sinni vildi ég geta orðið rangeygð á öðru og ég æfði mig og nú get ég orðið rangeygð á öðru. Einu sinni langaði mig alveg rosalega að geta blístrað með því að setja fingurna upp í mig og eftir langar æfingar get ég núna blístrað með fingrunum. Um daginn tók ég upp á því að ég vildi endilega klappa með annari hendi eins og Sigurlaug getur þannig að núna sveifla ég höndunum í tíma og ótíma til að reyna að láta koma klappihljóð. Sigurlaug er líka að reyna að kenna mér að blása í lófana á mér þannig að það komi einhverskonar blísturhljóð. Ætti ég að stofna eins manns sirkus?

|

08 maí 2006

Ég er Arna, ég er sextug

Ég vildi óska þess að það eina sem ég þyrfti að hugsa um næsta mánuðinn væru rollur. Enginn skóli, enginn tónlistarskóli, engin próf. Bara ég, kindurnar, lömbin, fuglarnir, rás 2, gróðurinn, lopasokkarnir, góða veðrið og kyrrðin. Enda hef ég tekið þá ákvörðun að eftir menntaskólann ætla ég að taka mér ársfrí til að gera eitthvað skemmtilegt en hvað sem ég geri þá ætla ég að fara heim í maí og upplifa alvöru sauðburð - og ekkert annað! Ég heiti ekki Ísbjörg og ég er ekki ljón. Ég heiti Arna og ég er úr sveitinni!

|

02 maí 2006

Fram þjáðir menn

Mér myndi ekki þykja það leiðinlegt ef það væru alltaf þrír dagar í helgi, maður gæti alltaf gert svo margt. Þrír dagar er svo miklu meira en tveir dagar! Ef maður á þrjá daga til aflögu sting ég upp á að maður:
  • Fari heim til sín, til að byrja með.
  • Fari pínu í fjárhús (eða bara mikið...)
  • Þrífi bílinn alveg inn að kviku
  • Fari í Kelduhverfi til Magneu gestrisnu og njóti samvista við hana og fjóra aðra óslípaða demanta
  • Nauðgi SingStar
  • Fari í Ásbyrgi og blotni í fæturna
  • Komi þrjá daga í röð til Húsavíkur.
  • Fari í þrjú kaffi á einum klukkutíma.
  • Fari ekki aftur til Akureyrar fyrr en mjög seint
  • Horfi mikið á Bráðavaktina

Ég er að reyna að læra á myndavélina mína og finna út allt sem hún býður upp á. Þessi leit dregur út listrænu hliðina á mér og ég ætla að deila með ykkur tveimur afar ólíkum myndum sem ég er afar stolt af.

Verðlaun fyrir þann sem veit hvað er á efri myndinni.

|