Heimskur hlær að sjálfs sín fyndni.
Ég hló eins og hálfviti þegar ég var að horfa á veðurfréttirnar áðan. Ekki það að veðrið hafi verið svona skemmtilegt (við eigum ennþá von á snjó), heldur sagði veðurfræðingurinn svo skemmtilega frá. Frásögn hans hljómaði einhvernveginn svona:
"Lægðin hefur sagt skilið við landið og er nú austan við það en hún skildi eftir afkvæmi ofan við Borgarfjörð. Litla lægðin á eftir..."
Mér fannst mjög fyndið að heyra virðulega veðurfræðinginn tala um "litlu lægðina" hvað eftir annað. Þetta var svona eins og barnasagan um litlu lægðina sem týndi mömmu sinni austan við land. Það þarf svo lítið til að skemmta mér...
Hildur frænka er örugglega komin á "most wanted" lista lögreglunnar í Prag eftir atburði dagsins. Hún reyndi s.s. að skipta fölsuðum 100$ seðli í banka og var tekin inn í bakherbergi. Þar var henni tilkynnt að seðillinn væri falsaður og það yrði að kalla á lögregluna. Hún lét nú ekki segja sér það heldur neitaði fyrst að seðillinn væri falsaður. Þegar hún sá loksins að hann var aðeins öðruvísi á litinn heldur en aðrir seðlar, sagði hún manninum að hún ætlaði sko ekki að leyfa þeim að taka hann, heldur ætlaði hún sjálf með hann í bankann þar sem hún fékk hann hjá frænku sinni áður en hún lagði af stað. Ekki veit ég hvað hún hefur sagt við manninn en hún er enn með seðilinn. Það skal tekið fram, svo það fari ekki milli mála, að Hildur hafði ekki hugmynd um að seðillinn væri falsaður þegar hún reyndi að skipta honum!
Óvænti söngtíminn í dag var einmitt það sem ég þarfnaðist.