Ginnungagap

31 maí 2006

Hoppandi hálfviti

Ég held að ég sé ekki alveg eins og annað fólk! Síðasta mánuðinn hefur eitt af stóru verkefnunum mínum verið söngprófið. Svo þegar það var búið var ég strax farin að hlakka til skólaslita tónlistarskólans til að fá prófskírteinið mitt. Síðasta föstudag byrjuðu prófin í Menntaskólanum og ég hef ekki hugsað um neitt annað en líffræði, stærðfræði og núna síðast efnafræði. Í allan dag er ég svo búin að vera hjá Guðjóni að reikna. Þegar Guðjón keyrði mig heim rétt fyrir 7 var fullt af bílum við Glerárkirkju. Ég skildi ekkert í öllum þessum bílum og nefndi það við Guðjón en okkur datt ekkert í hug og ég hætti að hugsa um þetta. Svo kom ég heim og borðaði í rólegheitunum, fór svo í tölvuna og rakst inná bloggsíðu nemanda í tónlistarskólanum sem var að tala um að hann hlakkaði til að fá einkunnirnar sínar. Þá fyrst mundi ég eftir því að ég hafði átt að fara á skólaslit í dag klukkan 6 og fá skírteinið mitt. Ég hafði meira að segja átt að fara upp á svið og alles! Ég kveikti ekki einu sinni þegar ég sá alla bílana við kirkjuna! Eins gott að mér gangi vel í prófinu á morgun því hausinn á mér rúmar greinilega ekki aðrar upplýsingar þessa dagana, en þær sem varða efnafræði!

|