Glær og grunlaus á Grænavatni
Hún gékk hægum skrefum upp stigann og inn í herbergið. "Úff" hugsaði hún með sér, "en það drasl". Hún var of þreytt til að nenna að taka til svo hún byrjaði að gera sig klára í svefninn. Hún tók af rúminu og byrjaði svo að afklæðast. Þegar hún dró bolinn yfir axlirnar fann hún að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Það var kalt. Hún reyndi að leiða kuldann hjá sér, klæddi sig í náttföt og stakk sér undir tvöfalda sængina með bók í hönd. Sagan sem hún las var spennandi og dró athygli hennar frá blánandi nefi og frosnum fingrum. Þegar augnlokin fóru að vara við verkfalli gékk hún frá bókinni og slökkti ljósið. Hún gætti þess að hreyfa sig ekki of mikið til þess að fara ekki út af upphituðu hlutum sængurinnar. Að lokum sofnaði hún við nauðið í glugganum, dúðuð í sængina.
Klukkan sex morguninn eftir byrjuðu óvænt læti á náttborðinu sem hún átti í erfiðleikum með að átta sig á. Grýlukertið sem lafði fram að nefi hennar hjálpaði til við að koma henni til vöku og hún áttaði sig á hljóðunum. Þegar hún bagsaði við að slökkva á ofurtæknilegu-vekjaraklukkunni varð henni litið í neðsta horn skjásins. Þar var hitamælir sem sýndi að lofthiti herbergisins var 12°. "Nú, þó það" hugsaði hún og reis á fætur. Það voru stærstu mistök hennar þann daginn. Úti fyrir glugganum var snjór yfir öllu og enn voru snjókorn að fjúka úr loftinu. Hún gaf sér dágóðan tíma í sjálfsvorkunn áður en hún hélt fáklædd niður tvær hæðir til að klæða sig enn betur og halda á vígvöllin. Förinni var heitið til bjargar varnarlausum sálum sem vissu ekki betur en að koman í heiminn væri hlý og notaleg. Þennan morguninn bjargaði hún þónokkrum sálum, sumum við komuna í heiminn, öðrum við fæðuöflun þar sem þeirra eigin mæður höfðu afneitað þeim.
Eftir nokkra stund snéri hún aftur heim og fór aftur í rúmið viti menn - hitinn var kominn upp í 12.5°. Svona leið dagurinn og um kvöldið var farið að snjóa aftur og það snjóaði og snjóaði. Nágranninn úr næsta herbergi hafði forritað ofninn fyrr um daginn þannig að hún sofnaði sæl og þreytt í 15°. Morguninn eftir var keimlíkur þeim fyrri nema að hitinn hafði enn hækkað og var nú farinn að nálgast 18°. Stúlkan fór að venju að athuga hvort einhverjar sálir þyrftu á björgun að halda og enn voru einhverjir sem ekki höfðu heyrt ráðleggingar hennar um að fæðast ekki í svona veðri. Snjórinn buldi á þakinu og henni var farið að kólna. Seinna þennan sama dag vöknuðu nágrannar hennar úr næstu herbergjum og í sameiningu framkvæmdu þau öll helstu haustverkin; Lokuðu fyrir öll göt og rifur, stóðu í ströngu við að loka hlöðudyrunum, sem höfðu verið opnar í langan tíma, og hýstu einn villuráfandi sauð sem þau höfðu í barnaskap sínum leyft að yfirgefa húsið. Allt var þetta eins og það átti að vera en samt var einhver rödd innra með henni sem sagði henni að ekki væri allt með feldu. Loksins rann það upp fyrir henni, hún hafði lifað í blekkingu náttúruaflanna. Það var sársaukafull elding sem laust niður í huga hennar þegar hún áttaði sig á því að það var ekki haust - það var vor!