Ginnungagap

15 maí 2006

He didn't know how to twist

Vorið er komið! Sannanir fyrir því má finna í höfðinu á mér sem geymir nú allskonar óþarfa upplýsingar opnanir listasýninga sem ég heyrði á rás 2 um helgina, höndunum á mér sem eru eins og sandpappír og laginu sem ég er með á heilanum, en það er á tungumáli sem ég skil ekki.
Vikan verður erfið/skemmtileg/ógnvekjandi. Til að standast þær raunir sem bíða mín pantaði ég mér tíma í litun og plokkun, því hvað sem gerist þá verð ég allavega með fínar augabrúnir. Annað kvöld verður Gettu betur-kvöldvaka í skólanum og þar ætlum við Sigurlaug og Fjölnir að halda uppi heiðri 2.V í bekksagnamótinu. Á miðvikudaginn verð ég að læra fyrir stærðfræðipróf til að bæta fyrir árangurinn í síðasta stærðfræðiprófi! Á fimmtudaginn er svo Eurovision - það krefst ekki skýringa. Já og svo á föstudaginn er svo blessaða söngprófið mitt þannig að ég verð líklega að gefa mér tíma af og til til að fara í söngtíma og æfa mig.

Ég er haldin þeirri áráttu að vilja koma mér upp algjörlega gagnslausum hæfileikum. Einu sinni vildi ég geta orðið rangeygð á öðru og ég æfði mig og nú get ég orðið rangeygð á öðru. Einu sinni langaði mig alveg rosalega að geta blístrað með því að setja fingurna upp í mig og eftir langar æfingar get ég núna blístrað með fingrunum. Um daginn tók ég upp á því að ég vildi endilega klappa með annari hendi eins og Sigurlaug getur þannig að núna sveifla ég höndunum í tíma og ótíma til að reyna að láta koma klappihljóð. Sigurlaug er líka að reyna að kenna mér að blása í lófana á mér þannig að það komi einhverskonar blísturhljóð. Ætti ég að stofna eins manns sirkus?

|