Ginnungagap

19 janúar 2006

Dagur í lífi Lappa

Það var rosa gaman hjá mér í gær. Ég fór með Sigga í sveitina í fyrradag og í gær þegar við komum heim fórum við beint í hesthús. Ég skemmti mér konunglega og gelti eins og mófó og hljóp út um allt og pissaði utan í marga staura og lyktaði af mörgum skítahrúgum. Þegar ég kom heim úr hesthúsinu slappaði ég af og laggði mig í sófann í nokkra tíma. Ég fékk að fara með Örnu þegar hún keyrði Sigga niður á höfn. Það var rosa gaman og á leiðinni heim sá ég hund í bandi og hló að honum. Þegar Arna var búin að leggja bílnum og komin út sá hún að hún hafði gleymt að slökkva ljósin og opnaði bílinn aftur og teygði sig í ljósin. Á meðan var ég alveg ótrúlega sniðugur og hljóp af stað út Suðurbyggðina. Arna kom reyndar hlaupandi á eftir mér, kallandi á mig en ég heyrði ekki orð af því sem hún sagði. Ég var of upptekinn við að lykta af hverju einasta horni og spræna aðeins hér og þar. Ég hljóp áfram Byggðaveginn, fram hjá Súper og alveg út að Þingvallastrætinu. Ég var að taka beygjuna upp Þingvallastrætið þegar ég sá óásprænt horn í hina áttina og snéri því við. Ég sá Örnu snúa líka við og hlaupa á eftir mér en ég hélt að hún væri bara í heilsuræktarhlaupi og nennti ekkert að vera að púkka upp á hana. En þegar ég var komin að Vanabyggðinni stoppaði ég og horfði út í loftið þegar Arna kom til mín. Hún var frosin í framan og svo kafmóð að hún kom ekki upp orði svo ég ákvað að fara til hennar og gá hvort það væri ekki allt í lagi. Þá bara tók hún í hálsólina mín og leiddi mig alla leiðina heim. Ég varð pínu fúll, því ég er stór strákur sem þarf ekkert að leiða en Arna hlustaði ekki þegar ég var að reyna að segja henni það. Þegar við komum svo heim skammaði Arna mig pínu og ég var pínu sorrý og fór í hornið mitt. Svo þegar ég fór til Örnu og ætlaði að láta hana klóra mér pínu var hún enn fúl því að hún hafði misst af öllu nema 5 mín af ER. Ég skil ekki af hverju hún var fúl, hún hefði ekkert þurft að fara út að hlaupa þegar hún vissi að ER var í sjónvarpinu.

Litli Prinsinn, a.k.a Lappi "Gabríel" Erlingsson

|