Ginnungagap

05 janúar 2006

Æ, ég veit það ekki

Í morgun gerðist sá einstæði atburður að ég svaf yfir mig. Ég hef uppi kenningar um að ég hafi verið í dái því ég hef engar minningar um að hafa nokkurn tímann heyrt í neinni klukku, hvað þá slökkt á henni. Sigga vakti mig rétt fyrir hálf 9 svo ég missti bara af einum enskutíma. Svo var lífsleiknitíminn bara stuttur þannig að dagurinn á eftir að verða heilanum nokkuð ljúfur.

Kvefhelvítið hefur fundið sér leið gegnum fíleflda varnargarða mína og er að hreiðra um sig í efri hluta líkamans. Mér finnst tilhugsunin um kvef í prófum ekkert skemmtileg. Ég veit ekki heldur alveg hvort það er gott eða ekki að vera mikið einn heima með stöð 2 og stöð 2 bíó í prófunum. Því fyrir manneskju sem hefur alist upp við eina sjónvarpsstöð er það að fá stöð 2 eins og það væri ókeypis í nammilandi. Elli og Sigga eru að fara til Kanarí og á meðan verðum við Kári ein heima með Lappa og hestana. Held að það sé ekkert nema gott til að líta aðeins upp úr bókunum.

Ég fer heim á morgun til að vera við jarðarförina hennar Dobbu og þegar hún er búin fer ég aftur til Akureyrar. Það var allaveganna planið áður en ég komst að því að ég hafði talið sjálfri mér trú um að söguprófið væri fyrsta próf og ég þyrfti að lesa sögu alla helgina. Söguprófið er næst síðasta prófið þannig að ég held að helgin endi með einhverju allt öðru en planað var.

|