Miðvikudagur til ...?
Í dag er síðasti vetrardagur. Það þýðir að á morgun er Sumardagurinn fyrsti og ég elska sumardaginn fyrsta. Þegar við Anna vorum litlar tókum við allt í einu upp á því að halda brennu á sumardaginn fyrsta. Við sönkuðum að okkur alls konar rusli og dagblöðum og svo eyddum við löngum tíma í að brenna það. Sumir gætu haldið að þetta hafi verið táknræn athöfn, brenna burt veturinn en ég held að við höfum bara verið að svala löngun skemmdarvargsins í okkur. Mig langar í brennu...
Þegar ég kom að sunnan í gær hafði rúmið mitt hækkað um tuttugu sentímetra. Ég þarf varla að reisa mig við til að hafa umsjón með stærð gluggarifu. Ég er samt ekki að kvarta undan stóru dýnunni, ég þarf bara að venjast því að sofa í hásæti.
Ég þoli ekki að þegar maður hefur ekki mikið að gera gerir maður ekki neitt. Ég er búin að hafa tvo og hálfan tíma til að gera allt sem ég þyrfti að gera en í staðinn lá ég uppi í sófa og horfði á sjónvarpið (þakka guði fyrir stöð2 bíó...) og er síðan búin að liggja í tölvunni. Ef ég hefði haft eitthvað meira að gera hefði ég skipulagt mig og endað á að gera allavega brot af því sem ég þyrfti helst að koma í verk.
Nenni að velta mér endalaust upp úr leti minni. Mig langar að deila með ykkur mynd af okkur frændsystkinunum sem var tekin í tilefni afmælis mest hipp og kúl ömmu í heimi. Glæsileg á að líta ekki satt...?