Ginnungagap

13 apríl 2006

Get ég aðstoðað?

Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér en áhugalaust starfsfólk. Ég er ekki að tala um dónalegt fólk því ég held að ég hafi sem betur fer aldrei lent í því. Ég er að tala um fólk sem brosir ekki, býður ekki uppá hjálp sína, mumlar góðan daginn, horfir ekki á mann á meðan afgreiðslu stendur og hleypur frá borðinu um leið og það er búið að afgreiða mann. Alltaf eins og maður sé að trufla það þegar maður dirfist að koma og kaupa eitthvað. Ég var sem sagt í Kringlunni áðan og ég lenti í nokkrum svona. Maður er miklu ánægðari með vöruna þegar maður fær bros og þakkir þegar maður gengur út heldur en þegar maður fær ekkert.

Nóg um það. Ég fann lykt áðan sem ég hef ekki fundið lengi og við það fór allt af stað í hausnum á mér. Mig óraði ekki að það gætu verið svona margar minningar tengdar einni lykt. Ég var stödd inni í Body shop en við að finna lyktina var ég komin á boðsball á Stóru-Tjörnum síðan í klefann í íþróttahúsinu og loksins á íþróttamót á Laugum. Þessari lykt fylgja alls konar gelgju-minningar um atburði sem ég var búin að gleyma að hefðu gerst. Lyktin minnir mig líka á eldrautt bómullarpils sem ég átti þegar þvertoppurinn var alls ráðandi í mínu lífi. ,,The spirit of Moonflower" -flaskan sem mamma gaf mér þegar ég var svona tólf ára endist ágætlega lengi. Ég endurnýjaði hana aldrei en þarna þar sem ég stóð og var að borga í Body Shop leit ég við og sá fölbleikt yfirbragðið og fann að ég varð að finna lyktina einu sinni enn. Ég réði síðan ekki við mig og keypti body mist flösku af þessu bara til að geta spreyjað í kringum mig þegar mig langar að hverfa á vit gelgjunnar.
Ég held að gelgjan hafi verið ráðandi inni í Body shop því þar keypti ég líka bláan maskara. Gerir maður það...?

|