Ginnungagap

23 apríl 2006

Stundin er runnin upp

Ég elska tímabilið sem nú er að hefjast. Það er ekki bara vegna hækkandi sólar sem ég gleðst heldur eru önnur atriði mér kærari. Það er sauðburður og eurovision. Tímabilið byrjaði núna um helgina. Áhugi minn á þessari einu rollu þeirra kerlinga sem er komin að burði er nánast óhugnalegur. Ég spyr nánar um heilsu hennar og hegðun en veikra ættingja minna og ég skrapp af og til út í Bakkhús til að gá hvort það væri eitthvað sem ég gæti gert til að flýta fyrir ferlinu. Það er ekkert sem ég get gert. Eurovision tímabilið hófst opinberlega í gær með fyrsta þætti Norrænu pallborðsumræðanna. Ég er ekki alveg sátt með þær breytingar sem gerðar hafa verið á spekingunum. Mér finnst reyndar sæti daninn fínn enda var ég aldrei alveg viss með þann gamla. Mér finnst nýji kynnirinn hræðilegur. Hvað varð um hressu stelpuna eða sæta strákinn? Þessi gamli karl með slykjubrosið og hræðilegu klippinguna er ekki alveg að gera sig. Síðasta og sísta nefni ég sænsku kerlinguna. Hvað var málið, hún var í fyrsta lagi í gegnsæjum topp, leit út eins og tuska sem hefur gleymst úti á snúru í nokkur ár, með fjórum númerum of stórt hár og svo var hún eins og hún væri á einhverju ólöglegu! Mér fannst Charlotte Nilson (eða hvað sem hún heitir nú...) ekki heldur skemmtileg í fyrra. Mér fannst hins vegar konan sem var undan henni alveg afbragð. En þátturinn var samt ágætur þrátt fyrir þessa annmarka og mér finnst þeir Thomas Lundin og Jostein Pedersen algerir gullmolar.

Arna sem langar í klippingu.

|