Ginnungagap

09 nóvember 2006

Þjóðlendur hvað?

Nú er komið að mér, sextugu Örnu, að tjá mig. Umræðuefni hennar í dag verður þjóðlendur. Eftirfarandi málsgrein er tekin af heimasíðu óbyggðanefndar og er um þjóðlendur:

"Fram að gildistöku þjóðlendulaga voru til landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til þjóðlendulaga kemur fram að gert sé ráð fyrir að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningar, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Tilgangur laganna er að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. "

Ok, þetta er kannski gott og gilt. En hvers vegna í ósköpunum er verið að taka land þar sem enginn vafi leikur á eignahaldi og engin sýnileg merki um að þar séu auðlindir sem hægt sé að græða á?!? Á þriðjudaginn var kynnt krafa fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins á landi norðan og austan Vatnajökuls og það er ekki lítil krafa skal ég ykkur segja! Það liggur við að meirihluti Skútustaðahrepps fari undir þjóðlendur. Mikill partur af Reykjahlíð og einnig partur af Grænavatnslandi. Og það eru ekki bara sandar og dauðir steinar sem verða teknir af okkur Grænvetningum heldur verða nokkrar af gersemum landareignarinnar eign allrar þjóðarinnar nái tillögurnar fram að ganga. Dæmi um þessar gersemar eru til dæms, Bláhvammur, Heilagsdalur, Seljahjallagil, Bláfjall og Suðurárbotnar. En það sem mér þykir nú samt verst af öllu er að Sellandafjall verður samkvæmt nýjum lögum þjóðlenda! Er ekki í lagi?! Ég er búin að prófa að vera hlutlaus og reyna að horfa á þetta hinu megin frá en ég get það bara ekki! Sellandafjall er einfaldlega yfir allt hafið!

Mynd eftir Ernu frænku mína, tekin í sumar þegar Sellandafjall var óumdeilanlega í landi Grænavatns.

Hægt er að skoða kort af nýjustu skandölum stjórnvalda hér.

Arna sem er sextug, bitur og þrjóskari en nokkurn tímann!

|