Ginnungagap

03 desember 2005

Vetur - vetur - vetur

Mér sýnist allt stefna í almennilegan vetur hér á norðuhjaranum. Ég er allavega búin að lenda í alls konar snjó-ævintýrum seinasta sólarhringinn. Byrjaði allt með því að seint í gærkvöldi fór ég niður í Gautlönd. Það var hríð og snjór á veginum. Ferðin gékk samt ótrúlega vel. En þegar ég ætlaði heim í nótt endaði það samt ekki eins og áætlað var. Guðjón og stelpurnar voru í bíl á undan mér og þau komust ekki langt áður en þau stoppuðu og komust ekki lengra. Við vorum með miklar spekúleringar um það hvað væri best að gera, reyna að koma mínum bíl á undan eða bakka bílunum alla leiðina til baka. Ragnhildur koma á jeppanum á eftir okkur og við fórum í skoðunarferð upp á Ása og ákváðum að fólksbílarnir kæmust þetta ekki, svo að við fórum bara inn aftur. Þegar þarna er komið við sögu var klukkan um hálf þrjú. Mér var svo kalt á fótunum því ég var ekki í neinum snjófötum. Svo kom Eddi og sótti Guðjón og hans stelpur en ég gisti hjá Ragnhildi og hennar stelpum.

Þá er snjó-ævintýrum mínum ekki lokið því í dag þegar við ætluðum út í sveit að hitta krakkana í íþróttahúsinu lentum við í öðru. Það var ekki búið að blása ásana en ég var nú næstum því alveg búin að komast alla leið út á þjóðveg þegar ég stoppaði og komst ekki af staf aftur. Ragnhildur, Magnea og Eygló voru á jeppanum á eftir mér og í sameiningu reyndum við öll trikk sem við kunnum. En aldrei komst bíllinn af stað. Þá komu Baldar og redduðu málum. Tóku við stjórn á vettvangi og við komumst út á þjóðveg.

Nú eru eflaust allir sem halda að öllu hafi verið bjargað þegar við komum út á þjóðveg og það var næstum því rétt. Ég þurfti að koma við hérna heima áður en ég færi út í Reykjahlíð og sagði stelpunum að þetta væri ekkert mál ég kæmist þetta alveg þær skildu bara drífa sig. Mér gékk ágætlega nema þegar ég kom á Holtið stoppaði ég aðeins og komst ekkert af stað aftur. Einar og Kristinn komu að hjálpa mér og svo pabbi og á endanum komst bíllinn í hlaðið og hefur ekki hreyft sig síðan.

Ég er aftur á móti að hugsa um að fara bara upp í rúm, lesa Harry Potter og fara ekki á fætur aftur fyrr en í vor. Eða kannski kíki ég fram úr þegar það er búið að skafa...

|