Ginnungagap

28 september 2006

Á ég að hafa þennan haus eða hinn...?

Ég er haldin valkvíða á háu stigi. Ég er lengi búin að vita að ég á í erfiðleikum með að velja ef fleira en eitt er í boði, en það er bara nýlega sem ég uppgötvaði að þetta háir mér. Um daginn langaði mig til dæmis í ný sængurver svo ég skaust inn í Rúmfó. Andskotinn - hillurnar voru fullar af flottum sængurverum. Ég var nokkuð lengi að skoða, meta, bera saman og gera annað sem er bráðnauðsynlegt við svona framkvæmdir. En eins og mér einni er lagið gékk ég tómhent út úr búðinni þónokkuð mörgum mínútum síðar. Ég gat ekki valið hvaða flottu sængurver mig langaði í svo ég keypti ekki nein! Þetta er örugglega líka ástæðan fyrir því að ein ferð í súper tekur mig hálftíma. Ég geng um alla búð, skoða allt, ber saman, skoða eitthvað aðeins betur og enda með það sama og ég keypti síðast.

Ég elska þegar fólk safnast saman, fær sér göngu og endar á torginu í góðri ræðu. Þess vegna fór ég í mótmælagöngu í gærkvöldi. Mér líður illa yfir því sem er að gerast. Mér finnst hræðilegt að hugsa til þess að Hálslón sé að verða að veruleika - á morgun!!! Mér finnst hræðilegt að ég, lítið peð á plánetunni jörð, geti ekki gert neitt nema standa og horfa á.

Já ég ætla ekki að gleyma að segja frá því hvað ég er orðin háskalega villt manneskja. Ég ákvað til dæmis í dag að skella mér til Reykjavíkur á morgun. Í því felst að ég þarf að skrópa í amk einn tíma á föstudag og keyra heim á sunnudag. Ég má heldur ekki gleyma því að klukkan er að verða hálf eitt á virku kvöldi og ég er enn inni í stofu í tölvunni. Hvað gengur eiginlega að mér...?Og já, ég ákvað að létta mér lífið og fara í b stærðfræði þannig að ég var líklega að fórna mínu tækifæri til að verða kjarneðlisfræðingur - bömmer!

|