Lopasokkar eru lífið
Ég ligg uppi í rúmi og er að borða nammi sem ég gleymdi að væri til. Er til betri leið til að enda alveg hreint ágætan laugardag? Vaknaði heima en kom inneftir seinni partinn og fór síðan í mat til Guðjóns. Hann eldaði alveg rosalega góðan mat og ég er búin að sjá það að ég get ekki boðið krökkunum til mín í mat því það eina sem ég kann að elda er eggjabrauð og pastasósa... Ég stenst klárlega ekki samanburðinn.
Ég get ekki ákveðið hvað mér finnst um það að verða 18. Stundum finnst mér það bara vera fínt og ekki skipta neinu máli en stundum fæ ég kvíðaköst og skrifa undir afsal af mér til mömmu svo hún geti ráðskast með mig langt fram yfir 18 ára afmælisdaginn minn.
Það er svo gaman þegar maður er einn í heiminum. Þetta gerist yfirleitt þegar ég er á leiðinni í tónlistarskólann með tónlist í eyrunum. Það er reyndar verra ef einhver verður vitni að einhverfu manns. Það var til dæmis í gær þegar ég hélt að ég væri ein og byrjaði að "úúú-a" með laginu sem ég var að hlusta á, en gékk þá ekki einhver villuráfandi sauður fram hjá mér. Hann lét nú ekki á neinu bera, enda ekki víst að hann hafi heyrt neitt nema óvænta hóstakastið sem ég fór í snögglega eftir að ég varð hans vör. Þetta hafði nú ekki meiri áhrif á mig en það að áður en langt um leið var ég aftur farin að veiða snjókorn með tungunni.
Merkilegt hvað manni er alltaf brugðið þegar maður kemst að því að einhver er svo miklu villtari en maður bjóst við. Í dag var það hún amma sem kom mér á óvart með að spurja hvort Hrólfur væri eitthvað sorrý! Mér hafði ekki einu sinni dottið í hug að þetta orð væri til í orðabókinni hennar svo að ég svo að ég man ekki einu sinni hverju ég svaraði. Það hriktir í traustustu stoðunum þegar amma slettir. Það er því með óttablandinni tilhlökkun sem ég velti því fyrir mér hvað hún segir, næst þegar ég hitti hana.
Kannski ég gefi sjálfri mér klippingu í afmælisgjöf...