Þarf að þvo eitthvað af þér?
Sum símtöl eru öðruvísi en önnur. Dæmi:
Hrólfur: Hæ
Ég: Hæ, hvað segirðu?
H: Bara fínt
Ég: Ok (orðin pínu örvæntinarfull yfir því að hann skuli hafa hringt, því á miðvikudagskvöldum þýðir það aðeins eitt...)
H: Hérna ég gleymdi að taka upp Bráðavaktina.
Ég: HA!! Hvernig gastu gleymt því %#$*~... Horfðiru þá á hana til að geta sagt mér hvað gerðist?
H:... eeee nei- eða jú bara endinn.
Ég: Og hvað er hún orðin ólétt? (Ég þakka internetinu fyrir að fylla í eyðurnar þegar upptökustjórinn er ekki að standa sig...)
H: Já hún sagði honum það í endann og...
Þarna hefðum við getað skilið sátt og ég lesið það á netinu hvað gerðist líka í þættinum en nei, samtalið var ekki alveg búið...
H: Hérna kemurðu um helgina?
Ég: Já ég veit ekki annað, nú?
H: Það er sko íþróttamót á föstudaginn og það vantar eiginlega foreldra til að sjá um matinn og ég sagði að þú gætir kannski gert það...
Ég: HA?!?!
H: Já, geturðu það?
Ég: ...(fann enga nógu gáfulega afsökun til að geta neitað) með hverjum verð ég?
H: Bara einhverjum mömmum.
Ég: jaaaá ok, ætli það ekki...(Sjittfokksjittsjitt!)
Svo ég fór út í skóla skjálfandi á beinunum (alltof seint reyndar en halló - ég þurfti að koma mér frá ak á hálftíma hefði ég átt að standast tímasetningar...) og þegar ég kom voru súpermömmurnar eiginlega bara búnar að öllu þannig að ég fékk að skera lauk. Tvo lauka meira að segja. Ekki svo hræðilegt. Svo fékk ég að fara út í íþróttahús og sjá krakka (sem mín dómgreind hélt að væru í fjórða bekk en eru víst í sjöunda...) keppa í íþróttum og hormónastarfsemi. Svo fékk ég að fara aftur í skólann að setja pitsur í ofn og skeiðar í kokteilsósu og djús í könnur. Svo fékk ég að vaska upp áður en ég fór heim með hálft tonn af pítstuafgöngum. Þessi innsýn í vanmetinn heim súpermömmunnar hafði áhrif á mig alla helgina. Ég fór til dæmis ekki úr flíspeysunni alla helgina og í dag gargaði ég bökunarleiðbeiningar meðan ég var í sturtu. Eins gott að síminn minn er búin að vera batterýislaus alla helgina - annars hefði Volvo-umboðið kannski náð í mig...