Ginnungagap

10 október 2006

Klifra

Uppáhald mitt á sauðfé hefur varla farið fram hjá neinum fastagesti Ginnungagaps. Þess vegna ætti það ekki að koma neinum á óvart þó þessi færsla snúist um rollu, nánartiltekið Klifru. Það er ekki á neina kynbótaskepnu í mínum stofni hallað þó að ég segi að Klifra sé uppáhaldskindin mín. Klifra fæddist í Bakkhúsum í maí árið 1997. Hún er dóttir Mýrispýtu og Hrúts sem hringdi aldrei aftur og skiptir því ekki máli. Ásamt Klifru komu í heiminn ónefnd systir og gæðaskepnan Bossi. Klifra dvaldist ekki lengi í Bakkhúsum því mamma hennar gat ekki séð um öll lömbin og Klifra fór því í fóstur suður á Grund þar sem hún hefur dvalið síðan. Aðskilnaðurinn frá móðurinni var Klifru erfiður hún átti erfitt uppdráttar hjá nýrri móður sem sýndi ekki mikinn áhuga á henni til að byrja með. Á því tímabili var Klifru gefinn peli því hún fékk ekki mjólk hjá fósturmömmu sinni. Þá varð hún mjög hænd að mannfólkinu. Sambandið við fósturmömmuna (sem ég er ekki frá því að hafi heitið Slæða...) gékk ekki upp svo Klifra, vinur hennar Malli og eitt ógæfulamb í viðbót dvöldu á eyju í Mývatni það sumar. Þar undu þau sér við leik og át fram á haust. Þegar Klifra kom heim var hún sælleg með exem á eyrunum. Ég veit ekki hvort það var vegna smæðar hennar eða fegurðar sem faðir minn þyrmdi sál hennar, en hún fékk allavega að lifa. Þegar þá um haustið var Klifra farin að sýna sterk merki þess að vera skemmtileg skepna þannig að ég var ekki lengi að eigna mér hana. Það var góð ákvörðun því Klifra hefur reynst vera hin mesta kynbótaskepna auk þess sem hún lífgar upp hversdaginn. Klifra hefur eignast það mörg afkvæmi að ég hef ekki hugmynd um helminginn af þeim, en það eru án efa flottustu skepnurnar í húsunum. Kannski liggur áhugi minn á Klifru mikið til í því að við erum líkar, bæði í skapi og smekk. Hún er ákveðin og sólgin í brjóstkykur, kex, svala og eiginlega bara allt matarkyns...

|